Innlent

Geir segir að lánið úr neyðarsjóðnum yrði viðbót við aðrar ráðstafanir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Geir Haarde forsætisráðherra.
Geir Haarde forsætisráðherra.

„Evrópusambandið hefur frumkvæðið að því að viðra þessa hugmynd við okkur í gegnum sendiráðið í Brussel. Það byggir meðal annars á því að ég skrifaði Sarkozy Frakklandsforseta fyrr í mánuðinum til að útskýra stöðuna á Íslandi," segir Geir Haarde um mögulegt lán Íslendinga úr neyðarsjóði Evrópusambandsins. Á vefútgáfu Times í dag segir Joaquín Almunia, framkvæmdastjóri peninga- og efnahagsmála ESB, að enn sem komið er séu Íslendingar og Ungverjar einu umsækjendurnir úr sjóðnum en heildarupphæðin í sjóðnum er 25 milljarðar evra.

Geir segir allt of snemmt að segja til um hversu hátt lánið yrði eða hvað fælist í láninu og skilyrðum sem því myndi fylgja. Framkvæmdastjórnin eigi eftir að fara yfir málið og svo Evrópusambandsþingið. Geir segir að lán úr þessum neyðarsjóð sé ekki eitthvað sem geti komið í staðinn fyrir eitthvað af því sem nú þegar er byrjað að ræða. Vegna þess hve langan tíma afgeiðsla ESB lánsins tæki yrði frekar um viðbót við aðrar ráðstafanir að ræða ef til lánsins kæmi.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×