Innlent

Boðar tillögur vegna erfiðleika nemenda í námi erlendis

MYND/Vilhelm

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra vonast til að geta kynnt síðar í dag tillögur sem miða að því að koma til móts við nemendur í námi erlendis sem eru í erfiðleikum vegna efnahagskreppunnar. Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Katrínar Jakosdóttur, varaformanns Vinstri - grænna, á Alþingi í dag.

Katrín benti á að Samband íslenskra námsmanna erlendis hefði komið á fund menntamálanefndar ásamt fulltrúum Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna stöðunnar. Þar hefðu þeir viðrað hugmyndir um að koma til móts við námsmenn erlendis. SÍNE hefði lagt til 500 þúsund króna neyðarlán eða tímabundinn yfirdrátt til að gera baráttuna auðveldari. Benti Katrín á að námsmennirnir væru í sérstakri stöðu því þeir hefðu ekkert félagslegt net. Spurði hún hvort ráðherra myndi beita sér fyrir einhverjum aðgerðum því næstu mánaðamót yrðu erfið.

Þorgerður Katrín sagði að námsmenn mættu ekki flosna upp úr námi vegna hins erfiða ástands. Sagðist hún myndu funda með SÍNE og LÍN í dag og þar yrði komið með tillögur til lausnar á tímabundnum vanda. Síðan yrðu menn að skoða langtímamál LÍN einnig. Sagði ráðherra að bregðast þyrfti hratt við og við hefðum ákveðið svigrúm til að beita lánasjóðnum. Vonaðist ráðherra til þess að gert kynnt tillögur þar að lútandi síðar í dag.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×