Enski boltinn

United skoraði fjögur í síðari hálfleik

Wayne Rooney er sjóðandi heitur þessa dagana
Wayne Rooney er sjóðandi heitur þessa dagana NordicPhotos/GettyImages

Rétt eins og Liverpool og Arsenal fyrr í dag, var Manchester United lengi að finna taktinn þegar liðið tók á móti West Brom á heimavelli sínum Old Trafford.

Wayne Rooney hefur verið í miklu stuði með United og enska landsliðinu síðustu vikur og hann hélt sýningunni áfram í dag í 4-0 sigri United.

Manchester United 4 - 0 West Brom

1-0 W. Rooney ('56)

2-0 Cristiano Ronaldo ('69)

3-0 D. Berbatov ('72)

4-0 Nani ('90)

Mark var dæmt af Rooney í fyrri hálfleik þar sem West Brom sýndi mikla seiglu, en á 55. mínútu braut hann ísinn með fyrsta markinu - hans áttunda í síðustu sex leikjum í öllum keppnum.

Rooney lagði svo upp annað markið fyrir Ronaldo og fjórða markið sem varamaðurinn Nani skoraði undir lokin. Dimitar Berbatov skoraði þriðja mark United eftir slakan varnarleik gestanna.

Brasilíumaðurinn Rafael Da Silva var í fyrsta sinn í byrjunarliði United en honum var skipt af velli á 65. mínútu fyrir gamla brýnið Gary Neville. Patrice Evra þurfti að fara af velli eftir rúmlega hálftíma vegna meiðsla og í hans stað kom John O´Shea.

Sigurinn þýddi að Manchester United er komið í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar með 14 stig, sex stigum á eftir toppliðum Chelsea og Liverpool. Arsenal er í þriðja sætinu með 16 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×