Íslenski boltinn

Valur í úrslit eftir sigur á ÍA í markaleik í Kórnum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Pálmi Rafn skoraði tvö í dag.
Pálmi Rafn skoraði tvö í dag.

Pálmi Rafn Pálmason og Dennis Bo Mortensen skoruðu báðir tvívegis fyrir Val sem vann 5-2 sigur á ÍA í Kórnum í dag. Eftir að Skagamenn misstu mann af velli með rautt spjald keyrðu Íslandsmeistararnir yfir þá.

Valsmenn voru hættulegri í byrjun en eftir tuttugu mínútna leik komst ÍA yfir með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var á Gunnar Einarsson. Bjarni Guðjónsson fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Skipulagðir Skagamenn gáfu Valsmönnum ekki mörg færi í fyrri hálfleiknum og ÍA með forystu í hálfleik. Eftir um fimm mínútna leik í seinni hálfleik tókst Val hinsvegar að jafna þegar dæmd var önnur vítaspyrna. Pálmi Rafn tók spyrnuna og skoraði.

Þriðja vítaspyrna leiksins var dæmd sjö mínútum síðar en þá fékk ÍA víti. Hinsvegar brást Bjarna bogalistin og Kjartan Sturluson varði. Örfáum mínútum síðar var ÍA refsað fyrir að misnota þessa spyrnu þegar Pálmi Rafn skoraði sitt annað mark, að þessu sinni með skalla af stuttu færi, og staðan orðin 2-1.

Á 69. mínútu fór síðan af stað þriggja mínútna farsakennd atburðarrás. Andri Júlíusson jafnaði fyrir ÍA með skalla á fjærstöng eftir fyrirgjöf Stefáns Þórðarssonar. Skagamenn voru nánast enn að fagna markinu þegar Valur skoraði í næstu sókn á eftir og endurheimti forystuna. Dennis Bo skoraði með föstu skoti.

Örfáum sekúndum síðar fékk Dario Cingel, leikmaður ÍA, rautt spjald fyrir brot á Pálma Rafni. Einum manni færri sáu Skagamenn ekki til sólar og Valsmenn réðu ferðinni algjörlega.

Dennis Bo gerði algjörlega út um leikinn með fjórða marki ÍA og Daníel Hjaltason skoraði það fimmta með skalla í uppbótartíma en í sókninni á undan hafði hann skallað í slá. Úrslitin því 5-2 fyrir Val.

Valsmenn eru því komnir í úrslitaleik Lengjubikarsins en þess má geta að Deildabikarmeistaratitillinn er sá eini hér á landi sem þjálfarinn Willum Þór Þórsson hefur ekki hampað. Hinn undanúrslitaleikurinn hefst klukkan 19:00 í Egilshöll þar sem Fram og Breiðablik eigast við. Fylgst verður með gangi mála í leiknum á Boltavakt Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×