Innlent

Berjast fyrir bættri ímynd í Bretlandi

Hópur manna hefur tekið sig saman og ætlar að berjast fyrir bættri ímynd Íslands í Bretlandi. Um er að ræða fólk sem hefur góð tengsl við Bretland, hefur menntað sig þar og búið, á þar vini og þekkir fólk í lykilstöðum.

Nokkrir þeirra komu saman til fundar í dag, en komið hefur í ljós að fjölmargir smærri hópar hafa verið að vinna að svipuðum markmiðum um tíma. Stefnt er að því að reyna að boða til stærri fundar annað kvöld. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 er unnið að gerð aðgerðaráætlunar í þremur liðum. Í fyrsta lagi að safna undirskriftum við einhverskonar þjóðarávarp sem komið yrði í breska fjölmiðla. Undirskriftum yrði safnað á Netinu, en einnig með því að fá hjálparsveitir og eða aðra hópa til að safna undirskriftum.

Í öðru lagi að koma vönduðum greinum í breska fjölmiðla þar sem staða Íslands yrði skýrð og í þriðja lagi að hvetja alla Íslendinga með tengsl í Bretlandi til að nýta sér þau tengsl við að koma upplýsingum á framfæri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×