Innlent

Vonast til að eignir Landsbankans dugi upp í skuldir vegna Icesave

Bæði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra vonast til að eignir Landsbankans nái upp í skuldir vegna Icesave-reikninganna. Þetta kom fram í máli þeirra eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

Björgvin sagði við fréttamenn að flest benti til þess að eignir næðu upp í skuldir og vitnaði hann enn fremur til orða Björgólfs Guðmundssonar, fyrrverandi aðaleiganda bankans, í Kastljósi í gær þar um. Hann sagði mikilvægt að varðveita eignir Landsbankans í Bretlandi en vildi ekki fullyrða hvort það tækist. Aðstæður á markaði væru erfiðar.

Um orð Gylfa Arnbjörnssonar í Mannamáli á sunnudag að Björgvin og Árni Mathiesen fjármálaráðherra ættu að axla ábyrgð á ástandinu og segja af sér sagði Björgvin: „Við munum öll, bæði ráðherrar þessarar ríkisstjórnar og fyrri, horfast í augu við gjörðir okkar þegar úttekt liggur fyrir á falli bankanna. Ekki mun ég skorast undan því þegar að því kemur," sagði Björgvin. Hann sagði enn fremur aðspurður að Gylfi mætti hafa sína skoðun á þessum málum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði Icesave-deiluna erfiðustu milliríkjadeilu sem við hefðum átt í. Mjög nauðsynlegt væri að lausn fengist í málinu svo eðlileg viðskipti og samskipti gætu átt sér stað. Varðandi eignir og skuldir vegna Icesave sagði Ingibjörg að guð léti á gott vita ef Björgólfur hefði haldið því fram að hægt væri að ná eignum upp í skuldir að fullu. Um hlut Frakka í lausn deilnanna sagði hún að þeir væru í forystu hjá ESB og hefðu leitast við að finna leiðir út úr deilunni. „Við höfum notið góðs af því," sagði hún enn fremur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×