Lífið

Jörðin fór að titra þegar talið barst að Loka Laufeyjarsyni

Breki Logason skrifar
Birna Þórðardóttir stendur fyrir gönguferðum um miðbæinn sem bera heitið, Í fótspor kattarins.
Birna Þórðardóttir stendur fyrir gönguferðum um miðbæinn sem bera heitið, Í fótspor kattarins.

Birna Þórðardóttir stendur fyrir gönguferðum um miðbæinn sem bera heitið, Í fótspor kattarins. Í gær var hún með hóp og var að ræða um heitin á götunum í þingholtunum. Þegar talið barst að Lokastíg og sögunni af Loka Laufeyjarsyni gerðist atvik sem óhætt er að segja að hafi fengið hópinn til þess að standa á öndinni.

„Þegar við komum að Lokastíg fer ég að útskýra hvernig er nú komið fyrir honum Loka þar sem hann liggur bundinn í hellinum. Sigyn kona hans heldur skál yfir honum og passar að eitrið fari ekki í andlit Loka. Síðan þegar skálin er orðin full þarf hún að fara út fyrir hellinn og tæma hana," segir Birna þegar hún rifjar upp atburði gærdagsins.

„Hún gerir sér það að leik að vera svolítið lengi og á meðan drýpur eitrið í andlit Loka og við það verður jarðskjálfti," segir Birna sem vitnaði síðan í samtal sitt við Ragnar Stefánsson, gjarnan kenndan við Skjálfta.

„Ég spurði hann eitt sinn að því hvort þetta stæðist ekki jarðfræðilega og hann svarði því ekki með nei-i og því tek ég því sem já-i. Þegar ég er búin að sleppa orðinu fer allt að titra og skjálfa," segir Birna en þetta var fimmtán mínútum fyrir fjögur í gær þegar stóri skjálftinn dundi yfir landið.

„Þá sagði fólk að þetta væri líklega satt hjá mér, enda er allt illt honum Loka að kenna."

Birna segist hafa séð á augnaráði fólks að hún þyrfti kannski að gæta orða sinna betur næst.

„Ég er einmitt að fara í aðra gönguferð núna á þessar sömu slóðir, ætli það sé ekki best að ég finni mér annað orðalag."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.