Íslenski boltinn

Valur tapaði í Árbænum og FH gerði jafntefli 4-4

Elvar Geir Magnússon skrifar

Öllum fjórum leikjum kvöldsins í Landsbankadeildinni er lokið. Íslandsmeistarar Vals töpuðu sínum öðrum leik þegar Fylkismenn tóku sín fyrstu stig og þá gerðu Þróttur og FH 4-4 jafntefli í svakalegum leik.

Keflavík og Fjölnir eru með fullt hús á toppi deildarinnar eftir sigra á HK og Grindavík sem eru stigalaus.

Hægt var að fylgjast með á Miðstöð Boltavaktarinnar, www.visir.is/boltavakt.

HK - Keflavík 1-2

Fylkir - Valur 2-0

Þróttur - FH 4-4

Grindavík - Fjölnir 0-1

 

Þróttarar tóku á móti FH á Valbjarnarvelli en Hjörtur Hjartarson kom Þrótti yfir strax á fyrstu mínútu leiksins eftir sendingu frá Rafni Andra Haraldssyni. Tryggvi Guðmundsson jafnaði úr vítaspyrnu á 9. mínútu og lagði síðan upp mark fyrir Davíð Þór Viðarsson á 19. mínútu.

Þróttarar lögðu þó ekki árar í bát og hinn danski Dennys Danry jafnaði á 26. mínútu leiksins með glæsimarki. FH endurheimti forystuna á 58. mínútu þegar Jónas Grani Garðarsson skoraði. Aftur lagði Tryggvi upp. Þórður Steinar Hreiðarsson jafnaði á 70. mínútu.

Arnar Gunnlaugsson skoraði með marki úr vítaspyrnu undir lokin og margir FH-ingar farnir að fagna sigri. Eftir stórkostlega aukaspyrnu Dennis Danry potaði Eysteinn Lárusson fyrirliði Þróttar boltanum yfir línuna þegar 90 mínútur voru komnar á klukkuna. Úrslitin 4-4.

Halldór Hilmisson kom Fylki yfir gegn Íslandsmeisturum Vals á 31. mínútu eftir sendingu frá Vali Fannari Gíslasyni. Peter Gravesen bætti öðru marki við fyrir Fylki á 71. mínútu úr vítaspyrnu og úrslitin 2-0 fyrir heimamenn.

Á Kópavogsvelli komst HK yfir gegn Keflavík snemma í seinni hálfleik. Markið skoraði Mitja Brulc. Jón Gunnar Eysteinsson jafnaði fyrir Keflavík á 80. mínútu og skömmu síðar kom Patrik Redo gestunum yfir og gestirnir tóku því öll stigin.

Ólafur Páll Snorrason kom Fjölni yfir í nýliðaslagnum gegn Grindavík á 34. mínútu leiksins en hann skoraði beint úr hornspyrnu. Grindvíkingar komust nálægt því að jafna en fleiri urðu mörkin ekki og Fjölnir vann 1-0 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×