Íslenski boltinn

Guðmundur ekki með Val í kvöld

Guðmundur Benediktsson
Guðmundur Benediktsson

Íslandsmeistarar Vals verða án nokkurra lykilmanna í kvöld þegar þeir sækja Fylki heim í Landsbankadeildinni. Nýjasta nafnið á sjúkralista Valsmanna er framherjinn Guðmundur Benediktsson.

Guðmundur er meiddur á ökkla og getur því ekki spilað með Val í kvöld. Hann staðfesti þetta í samtali við Vísi í hádeginu.

"Ég er slæmur í ökklanum en það er ekki alveg á hreinu hvað það er. Ég er að bíða eftir því að fá að vita hvað þetta er en líklega eru það sködduð liðbönd. Þetta kemur líklega í ljós næstu daga," sagði Guðmundur.

Valsmenn eru án þeirra Baldurs Aðalsteinssonar, Dennis Bo Martensen, Daníels Hjaltasonar og Barry Smith í kvöld og ljóst að þeirra bíður erfitt verkefni gegn Fylki.

"Þetta verður mjög erfitt í Árbænum í kvöld. Þeir mæta grimmir til leiks og því verðum við að gera það líka," sagði Guðmundur, sem verður að sætta sig við að horfa frá hliðarlínunni.

Fylkir hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni, gegn Fram og Keflavík, en Valsmenn réttu úr kútnum eftir tap fyrir Keflavík í fyrsta leik og unnu góðan sigur á Grindavík í annari umferð.

Leikir kvöldsins í Landsbankadeild karla:

19:15 Fylkir - Valur

19.15 Þróttur - FH

19:15 HK - Keflavík

20:00 Grindavík - Fjölnir.  Beint á Stöð 2 Sport.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×