Innlent

Gjaldeyrishöftin munu skaða íslenskt efnahagslíf

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að aflétta ekki gjaldeyrishöftum þegar krónan verður sett á flot mun skaða íslenskt viðskiptalíf. Þetta er mat framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu. Hann telur að þær aðgerðir sem nú á að fara í séu síst til þess fallnar að endurvekja traust á íslensku fjármálakerfi.

Sett eru ströng skilyrði um fjármagnsflutninga milli landa og seðlabankanum gefnar víðtækar heimildir til að takmarka gjaldeyrisviðskipti samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi í gær.

Öll gjaldeyrisviðskipti voru takmörkuð þegar bankarnir hrundu í síðasta mánuði. Seðlabankinn mun væntanlega setja krónuna á flot á næstu dögum samkvæmt samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Ljóst er að gjaldeyriviðskipti verða þó ennþá háð takmörkunum og er það gert til að styrkja gengi krónunnar og koma í veg fyrir hrun.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur gagnrýnt þessi lög og telur að gjaldeyrishömlurnar muni skaða íslenskt viðskiptalíf. Telur hann vænlegra að setja krónuna á flot án takmarkana. Undir það tekur Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

„Við erum búnir að leggja það til allan tímann að taka slaginn, setja krónuna á flot og það er lang snyrtilegast. Það er þá til þess fallið að endurvekja það traust á fjármálakerfinu sem við erum sannanlega búin að missa. Við óttumst það að þessi aðgerði seinki því enn að þetta traust verði endurvakið og það er mjög alvarlegur hlutu fyrir íslenskt atvinnulíf," segir Andrés.

Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, segir Seðlabankann ekki hafa haft marga kosti í stöðunni.

„Það var niðurstaðan eftir að hafa rætt þetta mál til þaula við sérfræðinga IMF á sviði gjaldeyrismála og gjaldeyrishafta að þessi leið yrði sársaukaminni en hin sem að auðvitað kom til greina, að aflétta af öllum höftum í einu og láta gengið falla og reyna rétta það af á lengri tíma. Niðurstaðan varð sú að það yrði of mikil áhætta tekin með því vegna hinnar miklu skuldsetningar bæði heimila og fyrirtækja sem er hér á landi," segir Arnór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×