Innlent

Viðskiptanefnd fundaði um Bretaviðræður

MYND/HH

Óvíst er hvenær viðræður Íslendinga við bæði Breta vegna Icesave-reikninga Landsbankans halda áfram. Þetta var meðal þess sem fram kom á fundi viðskiptanefndar Alþingis í morgun. Rætt var um stöðu viðræðnanna og um tryggingasjóð innistæðueigenda á fundinum en nokkrir gestir skýrðu nefndarmönnum frá stöðu mála.

Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður viðskiptanefndar, segir nefndina hafa fundað stíft að undanförnu til þess að fá yfirsýn yfir stöðu mála. Á fundinn í morgun hafi komið Ásmundur Stefánsson, sem farið hefur fyrir íslensku samninganefndinn í viðræðum við Breta, Páll Þórhallsson úr forsætisráðuneytinu og Áslaug Árnadóttir úr viðskiptaráðuneytinu. Enn fremur komu lögspekingarnir Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal á fund nefndarinnar.

„Það er engin niðurstaða komin í viðræðurnar við Breta en það kom fram að viðræðunum hefur verið frestað og ekki er vitað hvenær þær hefjast á ný. Þá var rætt um hugsanlega málssókn íslenska ríkisins og við fengum þær upplýsingar að hún kæmi fyllilega til greina," segir Ágúst. Þá bendir hann á að forsvarsmenn gamla Kaupþings skoði einnig rétt sinn en Ágúst Ólafur segir ólíklegt að ráðist verði í sameiginlega málshöfðun.

Þeir Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal fóru á fundinum yfir sína lagatúlkun á deilunni við Breta. Þeir telja að íslenskum stjórnvöldum beri ekki að greiða meira en sem nemur þeirri upphæð sem sé í tryggingarsjóði innistæðueigenda. Ágúst bendir á að um gríðarlega hagsmuni sé að ræða fyrir báðar þjóðir en óvissa sé um það hvenær viðræður hefjist á ný og hverjar lyktir mála verða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×