Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur ákveðið að segja af sér þingmennsku í kjölfar þess að hann sendi í gær aðstoðarmanni sínum fyrirmæli um að senda bréf, þar sem ráðist er harkalega að Valgerði Sverrisdóttur varaformanni, undir nafnleynd á íslenska fjölmiðla. Svo illa vildi til að fyrirmælin bárust öllum fjölmiðlum landsins.
Í tilkynningu til fjölmiða segist hann hafa gert alvarleg mistök „og vitaskuld hljóp hér pólitískur hiti með mig í gönur. Ég hef af þeirri ástæðu ákveðið að segja af mér þingmennsku enda hefur það ævinlega verið bjargföst sannfæring mín að menn eigi alltaf að axla ábyrgð á eigin gerðum," segir Bjarni.
Hann segist þegar hafa tilkynnt þessa ákvörðun formanni Framsóknarflokksins og skrifstofustjóra Alþingis.