Innlent

Fjölmargar fregnir af uppsögnum úti á landi

MYND/GVA

Þær berast ört fréttirnar af uppsögnum víða á landinu þessa dagana. Á vef stéttarfélagsins Bárunnar á Suðurlandi kemur fram að samkvæmt heimildum félagsins hafi tvö fyrirtæki í byggingaiðnaði á Selfossi ákveðið að segja öllu sínu starfsfólki upp störfum.

Stórt verslunarfyrirtæki hefur sömuleiðis ákveðið að segja upp fjölda starfsmanna. Í báðum tilvikum er um hópuppsögn að ræða eða um 40 manns. Var ákvörðunin tekin eftir stýrivaxtahækkun Seðlabankans í gær.

Þá hafa fleiri fyrirtæki á félagssvæði Bárunnar tilkynnt um fækkun fólks. Flestir þeirra félagsmanna sem nú lenda í uppsögnum hafa aðeins áunnið sér eins mánaðar uppsagnafrest og gerir félagið ráð fyrir að allt að 50 manns missi vinnuna um þessi mánaðarmót en sú tala getur auðveldlega hækkað. „Fyrirtækin lifa nú í voninni um að það byrti til áður en uppsagnirnar koma til framkvæmda þó útlitið sé í raun skelfilegt," segir á vef Bárunnar sem krefst mótvægisaðgerða af hálfu ríkisvaldsins.

Mánaðamótin blóðug

Á vef Verkalýðsfélags Akraness kemur enn fremur fram að mánaðamótin verði blóðug fyri verkafólk, iðnaðarmenn og skrifstofufólk. Samkvæmt upplýsingum félagsins hefur á fimmta tug verkamanna, iðnaðarmanna og skrifstofumanna verið sagt upp í þessari viku á Akranesi. Flestir þeirra sem sagt hefur verið upp eru með eins mánaðar uppsagnarfrest þannig að síðasti starfsdagur flestra verður 30. nóvember.

„Nánast allar þessar uppsagnir tengjast starfsemi í byggingariðnaði og er óhætt að segja að byggingarmarkaðurinn sé nánast helfrosinn og því miður ber formaður félagsins verulegan kvíðboga fyrir því að mun fleiri uppsagnir eigi eftir að líta dagsins ljós áður en kemur að mánaðarmótum," segir á vef Verkalýðsfélagsins.

Þar er einnig kallað eftir aðgerðum stjórnvalda. „Það er deginum ljósara að íslensk stjórnvöld verða að koma íslenskum launþegum og heimilum landsins til hjálpar og það tafarlaust ef ekki á verulega illa að fara fyrir íslenskum heimilum," segir á vef Verkalýðsfélags Akraness.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×