Íslenski boltinn

Þjálfarar veðja flestir á Keflavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Flestir kollegar Kristjáns Guðmundssonar veðja á hans menn á morgun.
Flestir kollegar Kristjáns Guðmundssonar veðja á hans menn á morgun. Mynd/Anton

Þjálfarar þeirra átta liða í Landsbankadeildinni sem ekki koma við sögu í leikjum Keflavíkur og FH í morgun veðja flestir á að Keflvíkingar verði Íslandsmeistarar í mótslok.

Fimm þeirra spáðu Keflavík titlinum, tveir gátu ómögulega gert upp á milli liðanna og einn spáði FH-ingum titlinum.

Flestir spá því þó að það verði mikil spenna í leikjunum tveimur og að úrslitin gætu ekki ráðist fyrr en á lokamínútum leikjanna.

Keflavík mætir Fram á heimavelli og verður Íslandsmeistari með sigri, sama hvernig leikur Fylkis og FH fer. Ef Keflavík gerir jafntefli og FH vinnur sinn leik ráðast úrslitin á marktölu en FH þyrfti þá að vinna minnst með tveggja marka mun.

FH verður þó ávallt að vinna Fylkismenn til að eiga möguleika á titlinum.

Hér má sjá ummæli þjálfaranna.

Logi Ólafsson, þjálfari KR.Mynd/Daníel
Logi Ólafsson, KR - Keflavík

„Þetta er sem stendur í höndum Keflvíkinga. Maður hlýtur því að líta á þetta sem svo að þeir séu nær þessu en FH-ingar. En ef þeir misstíga sig og missa leikinn gegn Fram í jafntefli þá held ég að FH vinni Fylki það örugglega að þeir muni vinna upp markamuninn. Ég er þó ekki alveg hlutlaus í þessu þar sem að við erum í baráttu um Evrópusæti og Fram má því helst ekki vinna í Keflavík."

„En ég get vel unað Keflvíkingum að verða meistari. Ég held að þeir séu nærri þessu og hef ekki trú á að þeir klúðri þessu."

Willum Þór Þórsson, þjálfari Vals.
Willum Þór Þórsson, Valur - Óákveðinn

„Þetta er ekki ósvipuð staða og var fyrir ári síðan. Þá þurfti FH að vinna sinn leik og treysta á hagstæð úrslit í hinum leiknum. En ég held að það gæti vegið þungt að sálræna hliðin gæti reynst Keflvíkingum erfið. Þeim má ekki mistakast. Þetta verður auðveldara fyrir FH, þeir þurfa að sækja sigur og sjá svo til."

„En annars er ómögulegt að segja til um hvort liðið verði Íslandsmeistari. Þetta er gríðarlega spennandi. Það verður ekki auðvelt fyrir Keflvíkinga að brjóta Fram niður enda með gríðarlega gott varnarlið. Það er líka stemning með Frömurum og þeir ætla sér þriðja sætið. En Keflavík getur boðið upp á marga möguleika í sínum sóknarleik og með marga hraða og klóka leikmenn sem sækja alls staðar að á vellinum."

Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks.Mynd/Anton
Ólafur Kristjánsson, Breiðablik - Óákveðinn

„Þetta er erfið spurning. En ég hallast þó að því að það verði jafntefli í Keflavík fyrst þeir náðu ekki jafnteflinu í Kaplakrika í næstsíðustu umferðinni. Hins vegar er ég ekki viss um að FH vinni sinn leik með tveimur mörkum. Ég er nú sjálfur gamall FH-ingur en held þó ekki með öðru liðinu. Bæði lið eru verðugir meistarar og Keflvíkingar hafa átt mjög gott tímabil. Ég er þó í miklum vafa."

„Þetta mun velta á markatölunni. Það gæti því dugað Keflavík að gera jafntefli. Mér finnst kannski að Keflavík hafi átt betra tímabil þegar á heildina er litið en FH er að rísa upp á réttum tíma - þrátt fyrir skellinn gegn Fram."

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis.Mynd/E. Stefán
Ásmundur Arnarsson, Fjölnir - Keflavík

„Ég held að Keflavík verði Íslandsmeistari. Bæði þessi lið munu klára sína leiki á morgun. En vissulega verður spennustigið hátt í Keflavík en þeir eiga eftir að nýta sér stemninguna sem er í bænum. FH mun heldur ekki rúlla yfir Fylkismenn sem ætla sér að sýna lit og klára tímabilið á sem bestan máta. En FH-ingar eru mjög ákveðnir í sínum aðgerðum þó það muni að öllum líkindum ekki duga til."

„Þetta verður dramatík allt undir lokin og það er alls ekki sjálfgefið Keflavík vinni sinn leik."

Milan Stefán Jankovic, þjálfari Grindavíkur.Mynd/Vilhelm
Milan Stefán Jankovic, Grindavík - Keflavík

„Ég tel að Keflvíkingar munu klára þetta. Það er mikill spenningur í herbúðum Keflvíkinga enda ekki orðið Íslandsmeistarar í langan tíma."

„Það verður þó vissulega erfitt að mæta Fram í þessum leik enda Framarar með mjög sterka vörn. En Keflavík er með bestu sókn deildarinnar. Ég held að þetta muni velta á því hvort að Keflavík nái að skora í fyrri hálfleik. Ef það tekst, verður þetta öruggt hjá þeim. Ef ekki, gæti allt gerst í seinni hálfleik."

„Það er heldur ekki víst að FH vinni Fylki. Haukur Ingi og félagar hans í Fylki hafa verið öflugir og þeir munu berjast fyrir þessu. Það vilja öll lið vinna síðasta leikinn. En þetta er það stórt tækifæri fyrir Keflavík að ég tel að þeir muni ekki klúðra þessu."

Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar.
Gunnar Oddsson, Þróttur - Keflavík

„Ég held að Keflavík vinni Fram og verði Íslandsmeistari. Ég hef bullandi trú á því. Ég held reyndar líka að FH vinni sinn leik."

„Þetta verður vissulega erfiður leikur fyrir Keflavík en þeir vita vel að með sigri verða þeir meistarar í fyrsta sinn í 35 ár og það á eftir að virka sem mikil innspýting í þessa öflugu vél sem er í Keflavíkurliðinu. Mér finnst líka Keflvíkingar vera eins og svart og hvítt á heima- og útivelli og það mun því fleyta þeim langt að vera á heimavelli í þessum lokaleik."

„En ég viðurkenni samt fúslega að Framarar hafa náð mjög góðum úrslitum í undanförnum umferðum og líta ljómandi vel út."

„Ég er auðvitað gamall Keflvíkingur og menn slíta aldrei ræturnar svo glatt. Ég fékk mitt uppeldi í fótboltanum þar og lék 177 leiki með félaginu í efstu deild. Ég hef því miklar taugar þangað. En mér finnst líka að Keflavík á það skilið að vinna. Keflvíkingar hafa spilað best í sumar og skorað flest mörk. Þeir munu klára þetta á morgun. En það er frábært að fá þessa spennu í lokin eftir mjög skemmtilegt mót. Þessi tvö lið hafa tvímælalaust skarað fram úr."

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari HK.

Rúnar Páll Sigmundsson, HK - Keflavík

„Ég hef trú á því að Framarar geti skapað usla í Keflavík enda í baráttu um Evrópusæti. En ég tel samt að Keflavík muni vinna leikinn og taka titilinn. FH-ingar verða einnig að klára sinn leik sem þeir gera væntanlega."

„Þetta verður mikil spenna fram á síðustu mínútu. Framarar hafa verið á miklu skriði og eru stórhættulegir í sínum skyndisóknum. Keflavík þarf svo að leggja allt í sölurnar sem getur verið hættulegt fyrir þá. En Keflvíkingar hafa verið það stöðugir í sumar að þeir eiga skilið að vinna þetta."

„Maður skyldi þó aldrei afskrifa FH-inga enda sýndu þeir í síðasta leik hvað þeir eru öflugir. Það getur vissulega allt gerst."

Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir, þjálfarar ÍA.Mynd/Arnþór

Arnar Gunnlaugsson, ÍA - FH

„Ég vona auðvitað að FH vinni titilinn enda byrjaði ég tímabilið með FH og tel mig eiga smá þátt í þessu. Ég spái þeim því sigur."

„Fram hefur spilað vel og hefur að einhverju að keppa í leiknum á morgun. Þetta er kærkomið tækifæri fyrir þennan klúbb að reka af sér slyðruorð síðustu ára með því að næla sér í Evrópusæti. Þorvaldur er búinn að vinna frábært starf með Fram. Hann er með vel útfærðar sóknir og hefur spilað skemmtilegan sóknarbolta."

„Ég tel þó að þetta verði ekki öruggur sigur hjá FH í Árbænum. En það hjálpar FH-ingum að þeir hafa oft áður verið í þessari stöðu, síðast í fyrra. Reynslan hjálpar til og það skiptir máli að halda haus í svona stöðu. Það mun koma í ljós hjá Keflavík enda getur manni flogið ýmislegt í hug í svona stöðu."

„Þó tel ég að þar fyrir utan eiga Keflvíkingar vel skilið að verða meistarar."

„Já, auðvitað mæti ég og tek við mínum verðlaunapeningi. Ég geri það stoltur og mun ekki fara í felur með það."


Tengdar fréttir

Spilla Fylkismenn titilvonum FH eins og 1989?

Fyrir lokaumferðina í Íslandsmótinu sumarið 1989 var FH á toppi deildarinnar með eins stigs forystu á KA. FH-ingar þurftu aðeins að vinna sigur á Fylki í lokaumferðinni til að verða Íslandsmeistarar.

Símun gæti orðið fyrsti færeyski Íslandsmeistarinn

Það er gríðarlegu áhugi í Færeyjum fyrir lokaumferð Íslandsmótsins í knattspyrnu á morgun. Símun Samúelsen getur orðið fyrsti færeyski knattspyrnumaðurinn sem verður Íslandsmeistari í knattspyrnu.

35 ára bið Keflvíkinga á enda?

Árið 1973 varð Keflavík Íslandsmeistari í þriðja sinn á fimm árum. Liðið tapaði ekki leik allt sumarið og gerði einungis tvö jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×