Innlent

Efast um að Hæstaréttardómari geti unnið með rannsóknarnefndinni

Sigurður Líndal, prófessor emeritus við lagadeild Háskóla Íslands.
Sigurður Líndal, prófessor emeritus við lagadeild Háskóla Íslands.
Sigurður Líndal, prófessor emeritus við lagadeild Háskóla Íslands, efast um að Hæstaréttardómari geti sinnt dómarastörfum á meðan að hann sitji í rannsóknarnefnd um bankahrunið. Fljótt á litið virðist starfið vera allt of umfangsmikið. Sigurður segir þó að Hæstaréttardómurum sé heimilt að vinna minniháttar störf samhliða dómarastörfum.

Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður telur að það sé stjórnarskrárbrot að skipa hæstaréttardómara í rannsóknarnefnd á aðdraganda og orsökum bankahrunsins eins og nýleg lög gera ráð fyrir. Í grein sem Sigurður Guðjónsson skrifar í Morgunblaðið í dag segir hann að með 61. grein stjórnarskrárinnar sé slegin skjaldborg um sjálfstæði og óhæði dómenda gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins. Geri þetta ákvæði ráð fyrir því að dómendur gegni aðeins dómstörfum en ekki öðrum störfum fyrir ríkið. Í lögum um rannsókn á bankahruninu er gert ráð fyrir að í rannsóknarnefndinni sitji Umboðsmaður Alþingis, einn Hæstaréttardómari og einn sérfræðingur skipaður af Alþingi.

Sigurður Líndal situr í nefnd um dómarastörf, en Hæstaréttardómarar verða að fá leyfi frá nefndinni ætli þeir sér að gegna öðrum störfum samhliða. Hann hafði ekki lesið grein nafna síns en sagði þó að menn yrðu að fara varlega í þessum efnum. „Fljótt á litið myndi ég halda að þetta væri nú töluverð störf. Ég get ekki ímyndað mér að menn geti sinnt dómsstörfum og þessum samtímis. Það er þá maður sem þarf ekkert að sofa," segir Sigurður Líndal. Hann bendir þó á að viðkomandi dómari geti mögulega fengið leyfi frá Hæstarétti á meðan að hann gegndi störfum fyrir nefndina. Fyrir því séu vissulega fordæmi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×