Innlent

Lögreglustjóri fjalli aftur um mál Mónakó og Monte Carlo

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur fellt úr gildi þá ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að takmarka þann tíma sem veitingastaðirnir Mónakó og Monte Carlo í miðborg Reykjavíkur hafa til þess að selja áfengi. Segir ráðuneytið að annmarkar hafi verið á málsmeðferðinni.

Báðir veitingastaðirnir óskuðu eftir endurnýjun á rekstrarleyfi sínu sem fól í því að afgreiða mátti áfengi frá klukkan ellefu á morgnana til eitt á kvöldin á virkum dögum og þrjú um helgar. Lögreglustjórinn óskaði eftir umsögn borgarráðs vegna málsins sem lagðist ekki gegn rekstrarleyfinu en beindi því til lögreglustjóra að kanna ítarlega hvort hafna ætti leyfisveitingunni vegna fjölda kvartana sem hefðu borist embættinu vegna ónæðis frá veitingastöðunum.

Lögreglustjóri bað þá um nýja umsögn þar sem fram kom að lögreglan hefði ítrekað haft afskipti eða verið kölluð til vegna atvika sem tengdust stöðunum beint eða óbeint. Fjöldinn væri meiri en gengur og gerist hjá öðrum stöðum. Þá hefðu nágrannar staðanna, bæði íbúar og eigendur verslana og annarrar atvinnustarfsemi, ítrekað kvartað vegna ónæðis og áreitis gesta á veitingastöðunum tveimur.

Í framhaldi af bréfi lögreglustjóra ákvað borgin að leggja til að staðirnir fengju að afgreiða áfengi frá klukkan sjö á kvöldin til eitt á virkum dögum og þrjú um helgar. Þessa niðurstöðu sætti eigandi staðanna sig ekki við og kærði ákvörðunina til dómsmálaráðuneytisins, meðal annars á þeim grundvelli að annmarkar hefðu verið á meðferð málsins.

Ráðuneytið sagði að þar sem eiganda veitingastaðanna tveggja hefði ekki verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum að þegar málið var til meðferðar hjá borgarráði hefðu annmarkar verið á málsmeðferðinni. Var lögreglustjóranum því falið að taka fyrir aftur umsókn veitingastaðanna að fenginni umsögn borgarráðs Reykjavíkurborgar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×