Innlent

Svíarnir neita um afgreiðslu

Cristina Husmark-Pehrsson, samstarfsráðherra Svía, ætlaði að kíkja á það af hverju ekki er hægt að fá lyf út á íslenskan lyfseðil.
Cristina Husmark-Pehrsson, samstarfsráðherra Svía, ætlaði að kíkja á það af hverju ekki er hægt að fá lyf út á íslenskan lyfseðil.

Íslendingar, sem verða uppiskroppa með lyfin sín, geta farið með íslenska lyfseðla í apótek á Norðurlöndum og fengið lyfin sín en í Svíþjóð er það ekki hægt. Ástæðan er sú að þeir sem framvísa lyfseðli í apóteki í Svíþjóð verða að hafa sænska kennitölu til að geta fengið lyfin afgreidd.

Íslendingur hefur framvísað lyfseðli frá íslenskum lækni í apótekum í Danmörku og á Álandseyjum í Finnlandi og fengið afgreiðslu en afsvar í Svíþjóð. „Ef maður kemur inn af götunni þá biðja Svíarnir um sænska kennitölu. Í Svíþjóð er þetta kerfislægt, engin lyf til fólks af götunni öðruvísi en að það hafi sænska kennitölu," segir íslensk kona.

Einar Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu, segir að Íslendingar eigi að geta framvísað lyfseðlum á öllum norðurlöndum og fengið lyf. „Samningur gildir um þetta og það á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Það er prinsipp að fólk geti leyst út lyf en vandamálin geta verið praktísk, að ganga úr skugga um að lyfseðillinn sé ekki falsaður og að læknirinn sé með lækningaleyfi í viðkomandi landi. Svo skilja menn kannski ekki íslensku í apótekinu en prinsippið er alveg klárt. Það er hægt að leysa út þessa lyfseðla," segir hann.

Siv Friðleifsdóttir alþingismaður tók málið upp á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki í október og fékk þau svör að Kristina Husmark-Pehrsson, samstarfsráðherra Svía, myndi kíkja á það. Svör hafa ekki enn borist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×