Innlent

Borgin styður Alþjóðahúsið í eitt ár

Óskar Bergsson, formaður borgarráðs.
Óskar Bergsson, formaður borgarráðs.

Borgarráð Reykavíkur samþykkti á fundi sínum í morgun að gera þjónustusamning við Alþjóðahús til eins árs. Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar hefur verið falið að sjá um samningsgerðina af hálfu borgarinnar.

„Með samningnum vill Reykjavíkurborg styðja við öfluga starfsemi Alþjóðahúss og stuðla að því að íbúar nýti kosti fjölmenningarlegs samfélags þar sem jafnrétti og gagnkvæm virðing einkenna samskipti fólks af ólíkum uppruna," segir í tilkynningu.

Reykjavíkurborg er meðal stofnaðila Alþjóðahúss og hefur veitt því fjárhagslegan stuðning frá árinu 2001. Borgarráð gerir ráð fyrir að fyrirhugaður þjónustusamningur taki við af núgildandi samningi Reykjavíkurborgar og Alþjóðahúss um næstu áramót.

„Reynsla annarra þjóða hefur því miður sýnt fram á að erfiðleikar í efnahagslífi þjóða auka hættuna á neikvæðni gagnvart innflytjendum," er haft eftir Óskari Bergssyni, formanni borgarráðs, í tilkynningu. Hann segir að sjaldan eða aldrei hafi verið jafn brýnt að styðja við starfsemi Alþjóðahúss og nú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×