Innlent

Bankarnir að verja sig fyrir veikingu en ekki taka stöðu gegn henni

Bankarnir voru að verja sig fyrir veikingu krónunnar - ekki að taka stöðu gegn krónunni, segir Yngvi Örn Kristinsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans.

Mánuðum saman hefur það gengið fjöllunum hærra að stóru bankarnir þrír á Íslandi, meðan þeir voru enn í einkaeigu, hafi markvisst tekið stöðu gegn krónunni og þannig unnið að falli hennar. Morgunblaðið fullyrðir í dag að samkvæmt heimildum þess þá hafi skoðun á efnahagsreikningum bankanna eftir hrunið sýnt stórfelldar stöðutökur gegn íslensku krónunni.

Furðu hafi sætt hversu háum fjárhæðum innlend og erlend fjárfestingarfélög hafi verið tilbúin að veðja á að krónan myndi veikjast. Bankarnir hafi haft milligöngu um slíka samninga og að heildarupphæð þeirra samninga nemi um 600 til 720 milljörðum króna. Það skal tekið fram að viðskipti sem þessi eru í alla máta lögleg.

Fréttastofa talaði í morgun við menn hjá tveimur bönkum og Seðlabankanum -en enginn gat staðfest þessar tölur. Ekki náðist samband við Fjármálaeftirlitið.

Yngvi Örn Kristinsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, sagði í samtali við fréttastofu að gjaldeyrisstaða bankanna væri háð reglum og eftirliti Seðlabankans og þeir skiluðu daglegum skýrslum til Seðlabankans um stöðuna. Bankarnir hafi á viðskiptalegum forsendum reynt að verja sig gegn gengissveiflum krónunnar með því að auka gjaldeyrisforða sinn. Það sé ekki að taka stöðu gegn krónunni heldur varnir gegn sveiflum í gengi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×