Erlent

Upplýst um dulnefni Baracks Obama

Óli Tynes skrifar
Barack Obama. Leyniþjónustumennirnir á bakvið hann kalla hann „Renegade.“
Barack Obama. Leyniþjónustumennirnir á bakvið hann kalla hann „Renegade.“

Bandaríska leyniþjónustan hefur meðal annars það hlutverk að gæta öryggis forsetans, fjölskyldu hans og háttsettra embættismanna. Viðkomandi fá dulnefni sem lífverðirnir nota í fjarskiptum sín á milli.

Dulnefnin eru raunar löngu hætt að vera leyndarmál en þau eru notuð engu að síður.

Þannig er George Bush „Trailblazer" , Bill Clinton var „Eagle" og Richard Nixon var „Searchlight."

Barack Obama hefur fengið dulnefnið „Renegade." Fjölskyldur forsetanna fá einnig dulnefni. Dulnefnin byrja alltaf á sama bókstaf og dulnefni forsetans.

Michelle Obama eiginkona forsetans er þannig „Renaissance" og dæturnar Malia og Sasha eru „Radiance" og „Rosebud."

Enginn veit hver það er hjá leyniþjónustunni sem velur nöfnin eða hversvegna hvert um sig er valið. Það virðist þó sem stundum snerti þau áhugamál eða uppruna þess sem á að vernda.

Dick Cheney varaforseti er mikill fiskimaður og fékk dulnefnið „Angler."

John McCain fékk dulnefnið „Phoenix" eftir höfuðborg heimaríkis hans Arizona.

Jimmy Carter var „Deacon" og Rosalynn kona hans var „Dancer." Dóttirin Amy var „Dynamo."

Önnur dulnefni sem leyniþjónustan hefur gefið skjólstæðingum sínum eru til dæmis: Dwight Eisnhower var „Scorecard" og kona hans Mimi var „Springtime."

John F. Kennedy var „Lancer" og Jackie kona hans „Lace." Dóttirin Caroline var „Lyric."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×