Enski boltinn

Torres þakkar stuðningsmönnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fernando Torres, leikmaður Liverpool.
Fernando Torres, leikmaður Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Fernando Torres hefur þakkað stuðningsmönnum Liverpool fyrir stuðninginn á tímabilinu sem var hans fyrsta hjá félaginu.

Óhætt er að segja að Torres hafi slegið í gegn en hann skoraði 24 mörk á tímabilinu sem er það mesta sem erlendur leikmaður hefur gert í ensku úrvalsdeildinni á sínu fyrsta tímabili. Ruud van Nistelrooy átti gamla metið.

„Stuðningsmennirnir styðja leikmennina, óháð því hverjir eru á vellinum," sagði Torres. „Þeir njóta þess að horfa á lykilmenn liðsins spila enda á Liverpool frábæra leikmenn í sínum röðum en liðsheildin verður alltaf aðalmálið hjá Liverpool."

„Stuðningsmennirnir styðja þétt við bakið á sínum mönnum jafnvel þó að hlutirnir gangi ekki vel þá stundina og gera það fram í dauðann."

„Þetta er helsti munurinn á enskri og spænskri knattspyrnu. Ef liði á Spáni gengur ekki vel eiga leikmennirnir ekki skilið að klæðast treyju viðkomandi liðs."

„Hjá Liverpool klæðast leikmennirnir treyjunni vegna þess að þeir eiga það skilið. Stuðningsmennirnir fara fram á að leikmenn leggi sig fram og stuðningur áhorfenda er mjög sérstakur. Það er eitthvað sem maður gleymir aldrei."

„Hvað mig varðar hef ég verið mjög heppinn að því leyti að allt hefur gengið vel frá fyrsta degi. Liðsfélagar mínir hafa hjálpað mér mikið og er ég þeim öllum skuldbundinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×