Innlent

Ríkið beri ekki ábyrgð á skuldbindingum Tryggingasjóðs

MYND/Pjetur
Ríkisendurskoðun telur að fella eigi Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta úr D-hluta ríkissjóðs og segir að sjóðurinn geti með engu móti talist eign ríkisins og það beri heldur ekki ábyrgð á skuldbindingum hans. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu stofnunarinnar um endurskoðun ríkisreiknings.

Í skýrslunni eru gerðar athugasemdir við ýmis atriði bókhalds og fjárreiðna hjá hinu opinbera og bent á að flestar þessara athugasemda hafi áður birst í skýrslum stofnunarinnar. Í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun segir að 55 prósent fjárlagaliða í A-hluta ríkissjóðs hafi verið með afgang en 15 prósent liðanna voru með halla umfram fjögur prósent af fjárheimild ársins 2007.

„Ríkisendurskoðun hefur margsinnis hvatt stjórnvöld til að taka á hallarekstri stofnana í samræmi við ákvæði fjárreiðulaga og reglugerðar um framkvæmd fjárlaga. Einnig hefur stofnunin lagt til að skýrar reglur verði settar um meðferð ónýttra fjárheimilda. Að auki voru gerðar ýmsar aðrar athugasemdir, t.d. við nokkrar stofnanir sem fjármögnuðu hallarekstur með yfirdrætti á bankareikningi en slíkt er óheimilt. Þá telur Ríkisendurskoðun að skýrari reglur vanti um ýmis bókhaldsatriði, m.a. um staðfestingar reikninga og skýringar á fylgiskjölum," segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×