Innlent

Lán með veði í kvóta færð yfir í nýja banka

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna í dag að til athugunar væri að auka þorkskvótann en engin ákvörðun lægi þó fyrir um það.

Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur kallað eftir því að stjórnvöld auki þorskkvótann á þessu fiskveiðiári um 20 þúsund tonn þannig að hann verði 150 þúsund tonn. Telja forsvarsmenn sambandsins að með því sé ekki verið að taka áhættu því að hrygningarstofninn fari nú stækkandi.

Þá sagði Geir enn fremur að lán sem tekin hefðu verið með veði í kvóta myndu verða færð úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Lánveitendur yrðu enn fremur að sýna fyrirtækjum í landinu skilning á þessum tímum.

Þá sagði forsætisráðherra það óábyrgt tal að leggja til að breyta kvótakerfinu við núverandi aðstæður. Hann sagði að sjávarútvegurinn hefð lagt grunninn að velsæld Íslendinga og vægi hans myndi aukast við núverandi aðstæður.

Honum var enn fremur tíðrætt um bankakerfið og þá ræddi hann um nýlega stýrivaxtahækkun Seðlabankans. Hækkunin hefði komið mörgum í opna skjöldu en hún hefði verið nauðsylegur liður í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Aðgerðin kæmi illa við marga en það hefði verri afleiðingar ef það hefði ekki verið gripið til hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×