Innlent

Lögreglumaðurinn með stöðugan verk í fingrinum

Ekki var hægt að sauma fingur lögreglumannsins sem brotnaði við bitið.
Ekki var hægt að sauma fingur lögreglumannsins sem brotnaði við bitið. MYND/FEYKIR

Lögreglumaðurinn, sem í fyrrinótt var bitinn illa í fingurinn, verður frá vinnu í einhverjar vikur. Í samtali við héraðsfréttablaðið Feykir segist hann vera með stöðugan verk í fingrinum en sökum þess hve nálægt naglaböndum bitið hafi verið sé ekki hægt að sauma fingurinn saman.

Karlmaður réðst á lögregluþjóninn í lögreglubíl og beit í fingur hans þannig að litlu mátti muna að fingurinn færi í sundur. Hafði lögregla afskipti af manninum eftir að hann hafði orðið uppvís að alvarlegri líkamsárás fyrir utan skemmtistað á Sauðárkróki þar sem fórnarlambið lá meðvitundarlaust eftir.

„Eftir því sem mér skylst þá er húðin þarna svo þunn að það er ekki hægt að sauma í hana. Þetta verður því bara að gróa að sjálfu sér," segir lögreglumaðurinn. „Ég fékk stífkrampasprautu og er á sýklalyfjum en læknar segja mér að fingurin verði aldrei samur," bætir hann við. Fingur mannsins er brotinn eftir bitið.

Lögreglumaðurinn hefur verið í lögreglunni í 9 ár en segist aldrei hafa lent í öðru eins. Hann telur að ofbeldi gagnvart lögreglunni sé að harðna og árásir á lögreglumenn, heilt yfir landið, verði stöðugt ósvífnari.

Umræddu atviki lýsir lögreglumaðurinn í samtali við Feyki en það var árásarmaðurinní fyrrnefndri líkamsárás sem beit lögreglumanninn.

„Þegar við höfðum náð fótum hans aftur í bílinn ætlaði hann að stinga sér út úr bílnum og þar sem maðurinn var handjárnaður sýndist mér stefna í að hann steyptist með höfuðið á undan niður á götuna. Ég fór því í að hagræða manninum og koma honum inn í bílinn aftur.

Einhvern veginn náði hann þá að bíta í fingurinn á mér og þar sem ég var illa staðsettur, hélt honum nánast uppi, gat ég mér litla björg veitt. Hann sleppti því ekki fyrr en um það bil hálfri mínútu síðar og hafði þá því sem næst bitið stykki framan af fingrinum á mér. Það var bara heppni að ég var í hönskum sem síðan aftur varð líklega til þess að hann náði ekki að bíta fingurinn af."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×