Enski boltinn

Benitez: Við gerum okkur erfitt fyrir

NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez stjóri Liverpool hrósaði karakter sinna manna eftir 3-2 sigurinn á Wigan í úrvalsdeildinni í dag, en segir leikmenn sína gera sér of erfitt fyrir.

"Ég sagði strákunum eftir leikinn að þeir yrðu að fara að gera sér auðveldara fyrir af því þeir byrjuðu skelfilega í dag. Við urðum að breyta miklu eftir að við fengum á okkur annað markið, en við höfðum sigur af því við höfðum trú á verkefninu," sagði Benitez á heimasíðu Liverpool.

Hann var spurður að því hvort hann teldi að liðið gæti haldið áfram að koma svona til baka eftir að lenda undir trekk í trekk.

"Ég verð að spyrja læknirinn minn að því," sagði Benitez glettinn. "Nei, við verðum að vera fljótari að skora eitt, tvö eða þrjú mörk. Það er erfitt í úrvalsdeildinni, en við sýndum karakter í dag sem kemur sér vel fyrir næsta leik sem er gegn Chelsea um næstu helgi. Vonandi náum við því, en ég væri alveg til í að geta verið rólegri á bekknum í þeim leik," sagði Benitez.

Hann hrósaði markaskoraranum Dirk Kuyt eftir að Hollendingurinn skoraði tvö mörk í dag.

"Það er alltaf það sama með Kuyt. Hann er maður sem allir stjórar væru til í að hafa í hóp sínum. Hann sýndi að hann getur skorað mörk. Við vissum að hann gæti það."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×