Innlent

Vilja bregðast við atvinnuleysi með auknu námsframboði

MYND/GVA

Rektorar sjö íslenskra háskóla sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir segja að bregðast þurfi við erfiðleikum í efnahagslífinu og yfirvofandi atvinnuleysi með fjölþættum aðgerðum á sviði menntamála.

Sérstaklega þurfi að nýta þann kraft og þekkingu sem háskólarnir búa yfir til að efla nýsköpun og skapa ný atvinnutækifæri. Bent er á að stór hluti atvinnulausra verði háskólamenntað fólk og það þurfi að fá tækifæri til að bæta við sína menntun með fjölbreytilegu námsframboði svo það geti gengið tvíeflt til starfa þegar aðstæður batna.

„Setja þarf aukinn kraft í rannsóknir og þá sérstaklega líta til ávinningsins sem ætla má að þær leiði til fyrir atvinnusköpun í landinu. Til grundvallar liggur að efla þarf gagnrýna hugsun og víðsýni og auka með landsmönnum kjark og áræði til að takast á við breyttar aðstæður og ný viðhorf.

Mikil og stórkostleg tækifæri blasa við Íslendingum og vilja háskólarnir leggjast á eitt með þjóðinni um að þau verði nýtt til uppbyggingar og framþróunar á öllum sviðum atvinnulífs og menningar. Rektorar hvetja stjórnvöld eindregið til að setja virkjun mannauðsins í forgang og móta með háskólunum nýja sókn til velferðar og öflugs samfélags. Framtíð þjóðarinnar byggir á því að hér búi vel menntað og framsækið fólk," segir enn fremur í yfirlýsingu rektoranna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×