Íslenski boltinn

Boltavaktin á öllum leikjum kvöldsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Fjórir leikir eru á dagskrá Landsbankadeildar karla í kvöld og verða þeir allir í beinni lýsingu á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins.

Hægt er að fylgjast með því helsta sem gerist í öllum leikjunum samtímis á Miðstöð Boltavaktarinnar, www.visir.is/boltavakt.

En að sjálfsögðu verður bein lýsing frá öllum leikjunum og hægt að fylgjast náið með öllu því helsta sem gerist í leikjunum um leið og það á sér stað.

Topplið FH mætir í heimsókn til Þróttar sem eiga enn eftir að vinna sinn fyrsta leik í efstu deild. FH-ingar hafa hins vegar ekki fengið mark á sig til þessa og gæti því róðurinn orðið þungur fyrir heimamenn.

Íslandsmeistarar Vals leika á útivelli í kvöld, rétt eins og FH-ingar, og fara í heimsókn til særðra Fylkismanna. Bæði lið hlutu slæma útreið í fyrstu umferðinni en Valsmenn náðu sér aftur á strik gegn Grindavík í síðustu umferð á meðan að Fylkismen töpuðu sínum öðrum leik. Árbæingar eru því enn án stiga en vilja sjálfsagt ná sér í sín fyrstu stig gegn meiðslahrjáðu liði Valsmanna.

HK-ingar eru sömuleiðis enn án stiga í deildinni og taka á móti Keflavíkur sem eru með fullt hús stiga. Liðunum var spáð svipuðu gengi í deildinni og hafa HK-ingar átt góðu gengi að fagna á heimavelli lengst af í veru sinni í efstu deild.

Að síðustu verður leikur Grindavíkur og Fjölnis í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en hann hefst klukkan 20.00. Hinir leikirnir hefjast klukkan 19.15.

Bæði lið eru nýliðar en hafa átt ólíku gengi að fagna í vor. Fjölnismenn hafa unnið tvo góða sigra til þessa og unnu til að mynda sigur á KR í síðustu umferð en KR-ingar unnu Grindjána í fyrstu umferð mótsins. Grindavík er enn án stiga en leikur sinn fyrsta heimaleik í kvöld og ætla sér án nokkurs vafa að láta til sín taka þar.

Þriðju umferðinni lýkur svo annað kvöld með leikjum ÍA og Fram annars vegar og KR og Breiðabliks hins vegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×