Innlent

Rannsóknarnefnd umferðarslysa vill 18 ára ökuleyfisaldur

Ágúst Mogensen er framkvæmdastjóri Rannsóknarnefndar umferðarslysa.
Ágúst Mogensen er framkvæmdastjóri Rannsóknarnefndar umferðarslysa.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa leggur til við löggjafann að við endurskoðun umferðarlaga verði ökuleyfisaldur hækkaður upp í 18 ár. Ýmis rök megi færa fyrir þess háttar breytingu. Líklegt sé að áhrifin gætu orðið jákvæð fyrir umferðaröryggi. Annars vegar myndi ökumönnum fækka og heildarfjöldi ekinna kílómetra minnka sem myndi leiða af sér fækkun slysa. Einnig kæmi hugsanlega til fækkun slysa vegna meiri þroska byrjenda í umferðinni.

Ökuleyfi of mikil ábyrgð

Að mati nefndarinnar vegur það einnig þungt að fólk verður ekki lögráða á Íslandi fyrr en við 18 ára aldur. Reglulega hafi orðið alvarleg slys, stundum banaslys, þar sem orsakavaldurinn er barn samkvæmt skilningi laganna. Að mati nefndarinnar gengur það einfaldlega ekki upp að ætla ólögráða einstaklingi þá ábyrgð sem ökuréttindum fylgir. Þetta álit kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa vegna alvarlegs slyss sem varð á Vesturgötu á Akranesi 18. febrúar síðastliðinn.

Tveir létust

Slysið varð með þeim hætti að ökumaður BMW bifreiðar tók háskalega fram úr öðrum bíl og missti þá stjórn á bifreiðinni, lenti upp á gangstétt og þaðan inn í garð og endaði ökuferðin með hörðum árekstri á húsvegg. Herbergisgluggi og hluti veggjar hrundu inn í herbergi sem er hálf niðurgrafið og á rúm sem þar var. Bæði ökumaður bifreiðarinnar og farþegi slösuðust alvarlega og misstu meðvitund. Farþeginn, sem sat í framsæti, lest tíu dögum seinna.

Vítaverður framúrakstur

Ökumaðurinn var 17 ára og hafði haft ökuréttindi í sex daga. Farþeginn, sem jafnframt var eigandi bifreiðarinnar var ekki með réttindi til að aka bifreið en hafði keypt bifreiðina þremur dögum fyrir slys. Báðir höfðu þeir verið staðnir að akstri án réttinda áður. Rannsóknarnefnd umferðarslysa segir að örsakir slyssins megi rekja til vítaverðs framúraksturs, of hraðs aksturs, ökumaður og farþegi hafi ekki verið spenntir í öryggisbelti, ökumaður hafi verið reynslulaus og hjólbarðar hafi verið slitnir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×