Innlent

UJ krefst þess að ríkisstjórnin stefni að inngöngu í ESB

Ungir jafnaðarmenn eru ungliðahreyfing Samfylkingarinnar.
Ungir jafnaðarmenn eru ungliðahreyfing Samfylkingarinnar.

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að ríkisstjórnin stefni að inngöngu í Evrópusambandið og segja að það sé lykillinn að endurreisn Íslands. Í yfirlýsingu frá þeim vegna ástands efnahagsmála er skorað á alþingismenn og allan almenning að tala fyrir þessum sjónarmiðum. Sérstaklega er skorað á aðrar ungliðahreyfingar að taka þessari áskorun þar sem framtíð Íslands er undir og fólksflótti ungsfólks fyrirsjáanlegur verði ekkert að gert.

Ungir jafnarðarmenn segir enn fremur að Ísland glími við tvöfaldan vanda, alþjóðlega lausafjárkreppu og íslenska krónu. „Mikið gengisfall krónunnar hefur sett fyrirtæki og allan almenning í gríðarlegan vanda. Ofan á það bætist að Seðlabankinn var ekki nógu sterkur bakhjarl fyrir íslenska fjármálakerfið. Þessum augljósu vandamálum hefðu allir skynsamir stjórnmálamenn átt að gera sér grein fyrir en á þeim var ekki tekið. Forystumenn stjórnmálaflokka, annara en Samfylkingarinnar, höfðu ekki hugrekki og kjark til þess að mæla fyrir inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru," segir í yfirlýsingunni.

Útrásarvíkingar axli ábyrgð

Þá segja jafnaðarmenn að útrásarvíkingar verði að axla sína ábyrgð í málinu og að endurskoða þurfi allt regluverk fjármálakerfisins til að koma í veg fyrir að þessar hörmungar geti endurtekið sig. „Kerfið á ekki að þjóna auðvaldinu heldur vinna í þágu almennings. Mikilvægt er að kerfið sé gegnsætt og komi í veg fyrir krosseignatengsl og samtryggingarkerfi stjórnmálamanna og auðmanna. Ungt fólk og konur eiga að gegna lykilhlutverki í nýju kerfi," segja ungir jafnaðarmenn.

Enn fremur er farið fram á það að gjaldeyrisviðskiptum landsins verði komið í lag og að sértækar aðgerðir séu nauðsynlegar til að stemma stigu við hækkun húsnæðislána. „Þegar til lengri tíma er litið verður að frelsa almenning undan verðtryggingunni og það verður gert með upptöku evru," segir í tilkynningunni. Fjárfesta verði í menntun, rannsóknum og nýsköpun en ekki eigi að misnota umhverfið og fiskistofna til þess að reisa landið við.

„Einstaklingar í landinu eiga að hafa tækifæri til að taka þátt í uppbyggingu hins vestræna heims í kjölfar lausafjárkreppunnar. Við megum ekki einangrast og mikilvægt er að losna við allar viðskiptahindranir bæði inn og út úr landinu. Nauðsynlegt er að eignast trúverðugan gjaldmiðil til að auðvelda fyrirtækjum að koma á viðskiptasamböndum og laða að erlenda fjárfestingu. Þessum markmiðum verður náð með inngöngu í Evrópusambandið," segja ungir jafnaðarmenn enn fremur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×