Innlent

Blaðamannafélagið hefur áhyggjur af stöðunni á fjölmiðlamarkaði

Arna Schram, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Arna Schram, formaður Blaðamannafélags Íslands.

Blaðamannafélag Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri alvarlegu stöðu sem er komin upp í fjölmiðlum sem birtist í fjöldauppsögnum og lokun fjölmiðla. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn félagsins sendi frá sér fyrir stundu.

Félagið fagnar því að menntamálaráðherra ætli að skipa starfshóp til að koma með tillögur til úrbóta. Félagið telur augljóst að skoða þurfi sérstaklega stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði.

Félagið segir að samkeppnisstaða fjölmiðla hafi verið erfið vegna sterkrar stöðu Ríkisútvarpsins sem hafi haft sig mikið í frammi á auglýsingamarkaði auk þess að hafa lögboðin afnotagjöld. Í því árferði sem sé núna sé hætta á því að slík staða geti orðið til þess að einkareknir fjölmiðlar leggist af. Það séu umbrotatímar og þá sé aðhald fjölmiðla og lýðræðisleg umræða nauðsynleg. Það sé ljóst að einn sterkur fjölmiðill dugi ekki til, það þurfi fleiri raddir til að endurspegla samfélagið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×