Innlent

Hlupu inn á flugbraut til að mótmæla brottflutningi Keníamannsins

Í morgun klukkan 7:45 hlupu tveir menn inn á flugbrautina við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þeir voru handteknir og eru nú í fangeklefa hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Brotin eru litin mjög alvarlegum augum og geta varðað fangelsi allt að sex árum.

Stefán Thordersen flugvallarstjóri staðfesti í samtali við Vísi að tveir menn hefðu hlaupið inn á flugverndarsvæðið þar sem þeir voru síðan handteknir.

Samkvæmt heimildum Vísis voru mennirnir að mótmæla brottför Keníamannsins Paul Ramses, sem fluttur var til Ítalíu í morgun. Mál hans hefur verið nokkuð í umræðunni undanfarið en hann sótti um pólitískt hæli. Paul var ofsóttur í heimalandi sínu og sótti því um hæli. íslensk stjórnvöld ákváðu hinsvegar að vísa honum úr landi án þess að taka umsókn hans til meðferðar.

Eyjólfur Kristjánsson, fulltrúi lögreglustjórans á suðurnesjum, sagði í samtali við Vísi að öryggisverðir flugvallarstjóra hefðu óskað eftir aðstoð við handtöku mannanna í morgun. Þeir hefðu verið handteknir og settir í fangaklefa. „Þeir verða yfirheyrðir á eftir. Svona mál eru litin mjög alvarlegum augum og geta valdið stór hættu," segir Eyjólfur. Athæfi sem þetta getur varðað fangelsi allt að sex árum samkvæmt heimildum Vísis.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×