Enski boltinn

Chelsea valtaði yfir Boro

Lampard skoraði eitt marka Chelsea í dag
Lampard skoraði eitt marka Chelsea í dag NordicPhotos/GettyImages

Chelsea er enn taplaust í ensku úrvalsdeildinni eftir 5-0 stórsigur á Middlesbrough á útivelli í fyrsta leik dagsins.

Marga fastamenn vantaði í lið Chelsea í dag en það kom ekki að sök. Salomon Kalou skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins fjórtán mínútur og þannig var staðan í hálfleik.

Chelsea fékk aragrúa færa til að bæta við en skoraði ekki annað markið fyrr en tæpar níu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik - en þá skoraði liðið tvö mörk á þremur mínútum.

Juliano Belletti skoraði glæsilegt mark með þrumuskoti af löngu færi og Kalou skoraði sitt annað mark þegar skot hans hrökk af David Wheater og í netið.

Eftir það var aðeins spurning hversu stór sigur Lundúnaliðsins yrði og þeir Frank Lampard og Florent Malouda kláruðu dæmið með fjórða og fimmta markinu.

Chelsea er því á toppi deildarinnar með 20 stig úr 8 leikjum en Boro er í 12. sæti með 9 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×