Innlent

Skilaskylda sett á gjaldeyri

Það á ekki að fleyta krónunni að fullu eins og við var búist og áfram verða einhver gjaldeyrishöft. Þetta kom fram í viðtali við Björgvin G. Sigurðsson, iðnaðarráðherra í Íslandi í dag, en hann mælir fyrir frumvarpi um gjaldeyrisviðskipti á þingi í kvöld. Þá stendur einnig til að setja skilaskyldu á útflytjendur til þess að tryggja að gjaldeyrir sem fæst fyrir íslenskan varning skili sér til landsins.

Í viðtalinu sagði Björgvin að brýnt væri að tryggja að gjaldeyrir sem fáist fyrir innlenda framleiðslu skili sér til baka til landsins. Þá sagði hann einnig að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir ákveðnum hömlum á gjaldeyrisflutninga. „Við erum að rífa í neyðarbremsuna okkar til þess að slá skjaldborg um þjóðina,“ segir Björgvin. Frumvarpið er nú verið að kynna í þingflokkunum og verður það flutt klukkan átta í kvöld af ráðherra.

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var greint frá því að Seðlabankinn hefði ekki tilkynnt viðskiptaráðherra um að fyrsti hluti láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum væri komið í hús fyrr en tæpri viku eftir að það barst. Björgvin segir að bankinn hafi ekki leynt þessu fyrir sér enda hafi honum ekki borið að tilkynna það sérstaklega til viðskiptaráðuneytinu.

Í viðtalinu var Björgvin einnig spurður að því hvort formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafi tekið hann og Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra „á teppið“ fyrir að hafa lýst yfir vilja til að flýta kosningum. Björgvin sagði það ekki rétt. Þau hafi hinsvegar rætt málið hreinskilningslega.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×