Íslenski boltinn

Sextán mörk í fimm leikjum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Fjölnismenn unnu Þrótt örugglega.
Fjölnismenn unnu Þrótt örugglega. Mynd/Pjetur

Keppni í Landsbankadeildinni hófst í dag þegar fimm leikir voru flautaðir á klukkan 14:00. Fjölmörg mörk litu dagsins ljós en þrír útisigrar litu dagsins ljós.

KR - Grindavík 3-1

Það var markalaust í hálfleik í Vesturbænum en þessum tveimur liðum var spáð ólíku gengi í sumar. Guðjón Baldvinsson opnaði markareikning sinn fyrir KR í Landsbankadeildinni þegar hann kom liðinu yfir á 63. mínútu með góðum skalla af markteig eftir frábæra fyrirgjöf frá Guðmundi Reyni Gunnarssyni.

Scott Ramsay jafnaði með mögnuðu marki og eitt af mörkum sumarsins hefur þegar litið dagsins ljós. Hann þrumaði boltanum í samskeytin frá vítateig eftir frábæra sókn Grindvíkinga. Guðmundur Pétursson endurheimti forystuna fyrir KR með skalla og annar varamaður, Ingimundur Níels Óskarsson, skoraði þriðja mark KR.

Þróttur - Fjölnir 0-3

Það var klassamunur á nýliðunum Þrótti og Fjölni sem mættust á Valbjarnarvelli. Gunnar Már Guðmundsson kom Fjölnismönnum yfir eftir 25 mínútna leik. Hann skoraði því fyrsta mark Fjölnis í efstu deild. Ólafur Páll Snorrason komst upp hægri kantinn og sendi góða sendingu sem hitti á Gunnar.

Fjölnismenn skoruðu síðan sitt annað mark á 61. mínútu en það gerði Pétur Georg Markan. Boltinn hafði viðkomu í varnarmanni áður en hann fór í netið. Gunnar bætti þriðja marki Fjölnis við í seinni hálfleiknum og innsiglaði verðskuldaðan sigur Fjölnis.

HK - FH 0-4

Tryggvi Guðmundsson átti stórleik fyrir FH sem vann 4-0 sigur á HK á Kópavogsvelli. Hann lagði upp fyrstu þrjú mörkin og skoraði það fjórða sjálfur. Atli Viðar Björnsson kom FH yfir eftir 14 mínútna leik og Jónas Grani Garðarsson bætti öðru marki við. Það var síðan Atli Guðnason sem skoraði þriðja mark FH með skalla. HK-ingar sáu ekki til sólar í leiknum.

ÍA - Breiðablik 1-1

Baráttueikur ÍA og Breiðabliks á Akranesi endaði 1-1. Prince Rajcomar kom Breiðabliki yfir eftir fimmtán mínútna leik. Blikar áttu skot sem markvörður ÍA hélt ekki og Prince skoraði örugglega. Eftir um stundarfjórðung í seinni hálfleik fékk Jón Vilhelm Ákason, leikmaður ÍA, sitt annað gula spjald og þar með rautt. Einum færri náði ÍA að jafna á 75. mínútu en Stefán Þórðarson skoraði markið.

Fylkir - Fram 0-3

Þá vann Fram 3-0 útisigur gegn Fylki í Árbænum. Jón Þorgrímur Stefánsson skoraði fyrsta markið á 14. mínútu eftir sendingu frá Sam Tillen. Jón fór síðan meiddur af velli síðar í hálfleiknum. Snemma í seinni hálfleik bætti Hjálmar Þórarinsson við marki og skoraði síðan sitt annað mark og þriðja mark Fram á 61. mínútu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×