Enski boltinn

Ferguson: Erfiðasti titilinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Alex Ferguson sagði eftir að Manchester United varð Englandsmeistari í dag að nýjasti titillinn hafi verið sá erfiðasti. Ferguson hefur tíu sinnum orðið meistari sem knattspyrnustjóri United.

„Var erfiðast að vinna þennan titil? Við áttum síðasta leikinn í dag og hann var á útivelli sem flækir málin," sagði Ferguson. „Við spiluðum vel lengst af í leiknum. Þetta stóð tæpt nokkrum sinnum og svo kom rigingin og þá getur allt gerst."

„Einmitt þegar ég hélt að við værum að ná stjórn á leiknum fórum við illa með nokkur færi og markvörður þeirra varði nokkrum sinnum vel. Maður beið óþreyjufullur eftir öðru marki og svo kom okkar elsti leikmaður, Ryan Giggs, og gekk frá leiknum - frábært."

Hann sagði að það hefði ekkert þýtt að hugsa um aðra leiki og hvernig staðan væri í leik Chelsea. „Það var einhver gaur á bak við mig sem sagði mér að staðan væri 2-0 fyrir Chelsea eftir eina mínútu. Sá gerði sitt fyrir Chelsea í dag."

Spurður hvort að það hafi átt sér stað einhver ákveðinn vendipunktur á tímabilinu sem gerði það að verkum að United komst á skrið.

„Ég held að þetta hafi flætt fram og til baka allt tímabilið. Það leit út fyrir að Arsenal myndi vinna deildina lengi vel en þeir virtust eiga erfitt eftir að við slógum þá út úr bikarkeppninni," sagði Ferguson. „En svo töpuðum við stigum gegn Blackburn og Middlesbrough og Chelsea blandaði sér í baráttuna."

„En að vinna tíu titla er meiriháttar. Ég er mjög stoltur og ég hef verið svo lengi í þessu. En þetta er frábært félag. Þetta er léttara fyrir mig en alla aðra," bætti hann við og sagðist ekkert vera að hugsa um að fara á eftir laun.

„Hvernig væri hægt að komast af án þessa alls," sagði hann einfaldlega.

United vantar nú einn titil til að jafna árangur Liverpool sem hefur unnið flesta meistaratitla í Englandi. „Ég held að þetta sé innan seilingar. Við erum með ungt lið sem er stöðugt í þróun. Þetta er gott ungt lið og leikmennirnir eiga mörg ár eftir."

Hann segir að með sigrinum í dag fari þeir á mjög jákvæðum nótum inn í úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem andstæðingurinn verður einmitt Chelsea. Í fyrra tapaði United fyrir West Ham í lokaleik sínum og í kjölfarið tapaði liðið í úrslitum ensku bikarkeppninnar.

„Er þetta besta lið sem ég ef stýrt? Ef þeir vinna Meistaradeildina hlýtur það að vera svo."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×