Enski boltinn

Solskjær ánægður með ungliða United

AFP

Ole Gunnar Solskjær, þjálfari varaliðs Manchester United, segist sjá fyrir sér að yngri leikmenn úr röðum félagsins eigi eftir að láta að sér kveða í aðalliðinu í nánustu framtíð.

Nokkrir af ungliðum félagsins fengu tækifæri til að spila í bikarleiknum gegn Middlesbrough.

"Ég var mjög ánægður með þá Danny Welbeck, Ben Amos, Rafael Da Silva og Rodrigo Possebon á þriðjudaginn. Þeir sýndu að þeir hefðu það sem til þarf til að spila fyrir framan 50,000 áhorfendur á Old Trafford," sagði Solskjær.

"Við reynum að kenna þessum drengjum vel og það gleður okkur að sjá að nokkrir þeirra hafa fengið að æfa með aðalliðinu. Ég hef verið að fá góðar umsagnir um þá frá þjálfurum aðalliðsins. Það er ekkert grín að vinna sér sæti í liði United, en ég trúi því að við eigum eftir að sjá mikið af strákunum í 16 og 18 ára liðinu í aðalliðinu í nánustu framtíð," sagði Norðmaðurinn í samtali við Manchester Evening News.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×