Enski boltinn

Ronaldo boðnar 30 milljónir á viku?

NordicPhotos/GettyImages

Breska blaðið News of the World segir að Manchester United sé að undirbúa nýtt samningstilboð handa Cristiano Ronaldo sem myndi færa honum tæplega 30 milljónir króna í vikulaun.

Ronaldo á enn þrjú ár eftir af samningnum sem greiðir honum rúmar 23 milljónir í vikulaun en samkvæmt reglum FIFA geti hann keypt sig út úr samningi sínum í lok næstu leiktíðar og því sé United tilbúið að bjóða honum nýjan samning sem yrði sá stærsti í sögu úrvalsdeildarinnar.

Sir Alex Ferguson segist ekki eiga von á því að til þess komi. "Enginn leikmaður félagsins til þessa hefur keypt sig út úr samningi sínum og ég á ekki von á því að til þess komi," sagði stjórinn.

Reglur FIFA segja að leikmaður geti keypt sig út úr samningi sínum þegar hann hefur lokið við þrjú ár af honum, en þá myndi það kosta Ronaldo um 12 milljónir punda að kaupa sig út ef hann tæki t.d. upp á því að fara til Real Madrid.

Stríði Alex Ferguson og Ramon Calderon forseta Real vegna Ronaldo virðist hvergi nærri vera lokið.

"Ronaldo fer ekki héðan. Calderon lofaði öllum að hann myndi kaupa hann í sumar og sýndi mikinn hroka - svo ég var mjög ánægður þegar hann ákvað að vera áfram. Við eigum von á fleiri skotum frá þeim en erum undir það búnir," sagði Ferguson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×