Enski boltinn

Bolton af botninum - Grétar lagði upp mark

Grétar Rafn lagði upp fyrra mark Bolton
Grétar Rafn lagði upp fyrra mark Bolton NordicPhotos/GettyImages

Bolton er komið af botni ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2-0 sigur á Manchester City á Reebok vellinum.

Þetta var annar ósigur Manchester City í vikunni eftir að það tapaði fyrir Middlesbrough á miðvikudaginn.

Grétar Rafn Steinsson var á sínum stað í byrjunarliði Bolton í dag og hann átti stoðsendinguna þegar Ricardo Gardner kom liðinu yfir á 77. mínútu.

Vonir City um jafntefli voru svo úr sögunni í lokin þegar Richard Dunne skoraði sjálfsmark eftir fyrirgjöf frá Gardner.

Bolton lyfti sér í 17. sæti deildarinnar með sigrinum og hefur hlotið ellefu stig líkt og West Brom, Wigan og Fulham. Þetta var þriðji sigur liðsins á leiktíðinni.

Manchester City átti ekki góðan dag frekar en í tapinu gegn Boro í vikunni og er í tiunda sæti með þrettán stig, en hefur reyndar aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum sínum í deildinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×