Innlent

Barentshafskvóti gæti skilað á fimmta milljarð króna

Þorskkvóti sem Íslendingar fá í Barentshafi á næsta ári gæti skilað fjórum til fimm milljörðum króna í þjóðarbúið.

Þorskkvóti íslenskra fiskiskipa í Barentshafi verður níu þúsund og sjö hundruð tonn. Þetta er stærsti kvóti í Barentshafinu til þessa og helgast af því að þorskkvótinn þar verður aukinn um 20 prósent á næsta ári samkvæmt tillögu Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Hlutur Íslendinga í kvótanum er tæp tvö prósent en Norðmenn og Rússar skipta með sér afganginum. Kvóti Íslands deilist á um þrjátíu skip en telja má víst að útgerðir sameini kvótann á fimm til sex skip til að ná sem mestri hagkvæmni úr veiðunum.

Á tíma þorskaflaskerðingar á Íslandsmiðum er þetta umtalsverð búbót fyrir þjóðarbúið og viðkomandi útgerðir en þær sem eiga mesta kvótann í Barentshafi eru Grandi, Brim, Samherji, FISK og Þormóður rammi. Hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna áætla menn að miðað við markaðsaðstæður, eins og þær eru um þessar mundir, og núverandi gengi krónunnar, þá gæti Barentshafskvótinn skilað 4,6 milljörðum króna í þjóðarbúið






Fleiri fréttir

Sjá meira


×