Innlent

Björn vill meiri þunga í umræður um utanríkismál

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir pólitíska stöðu Sjálfstæðisflokksins flókna en að það verði spennandi að vinna úr henni. Hann segir flokknum refsað fyrir hrun fjármálakerfsins og vill meiri þunga í umræður um utanríkismál.

Nýr þjóðarpúls Gallups sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur aðeins fylgis 26 prósenta þjóðarinnar og er flokkurinn sá þriðji stærsti í landinu samkvæmt könnunni á eftir Samfylkingunni og Vinstri - grænum. Björn segir á heimasíðu sinni að þessi niðurstaða bendi ekki til þess að áhuginn á að Ísland verði tafarlaust aðili að Evrópusambandinu risti djúpt. Vísar hann til fylgisaukningar Vinstri - grænna og segir Samfylkinguna dala.

,,Sjálfstæðisflokkurinn lendir í þriðja sæti í könnuninni og verður Kolbrúnu Bergþórsdóttur og fleirum þar með að þeirri ósk sinni, að flokknum sé refsað fyrir hrun fjármálakerfisins," segir Björn og vísar til pistils Kolbrúnar í Morgunblaðinu.

Enn fremur segir dómsmálaráðherra: ,,Pólitíska staðan er flókin og verður spennandi að vinna úr henni. Ég tel til dæmis nauðsynlegt að ræða utanríkismál af meiri þunga og alvöru en gert hefur verið undanfarin ár, þegar allt hefur verið einfaldað í kringum útrás og ESB, ekki-ESB."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×