Innlent

Rándýrum heimilstækjum stolið úr bústöðum

MYND/Róbert

Lögreglan á Selfossi leitar nú innbrotsþjófs eða -þjófa sem létu greipar sópa í tveimur sumarbústöðum og gróðrastöð í liðinni viku.

Þannig var brotist inn í sumarbústað í landi Efri Reykja í Bláskógabyggð einhvern tíma frá þriðjudegi til fimmtudags og þaðan stolið heimilstækjum að verðmæti á milli 700 og 800 þúsund króna. Stolið var Elektrolux-heimilistækjalínu, flatskjá og tveimur Philips-heimabíókerfum.

Um svipað leyti var brotist inn í sumarbústað í landi Kiðjabergs og þaðan stolið 50 tommu sjónvarpstæki, Bose-heimabíói, Bang og Olufsen útvarpstæki, sjónauka og málverkum.

Þriðja innbrotið á þessum slóðum var í gróðrastöðina að Espiflöt í Laugarási aðfaranótt fimmtudagsins 30. október. Þaðan var stolið sex gróðurhúsalömpum. Hver sá sem veitt getur upplýsingar um þessa muni eða nokkru því er leitt geta til þess að upplýsa þessi þrjú innbrot er beðinn að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.

„Lögreglan beinir því til allra húseiganda hvort heldur er íbúðarhús eða frístundahús að gera allt sem hægt er til að hindra þjófa í að komast inn í hús. Í frístundabyggðum er sem dæmi hægt að loka vegum með hliðum en hafa ber í huga að til þess þarf leyfi sveitarstjórnar. Þá er hægt að setja upp þjófavarnarkerfi og síðast en ekki síst að lágmarka verðmæti í húsum eins og kostur er. Einnig getur skipt máli að draga fyrir glugga svo ekki sjáist inn í húsin.

Íbúðareigendur í þéttbýli ættu að gæta þess að fara ekki frá ólæstum húsum eða með opnum gluggum jafnvel þó ekki sé verið að fara lengra en í næsta hús. Þar á einnig við að vera ekki með hluti eins og fartölvur þannig staðsettar að þær sjáist utanfrá. Stórar peningaupphæðir er fráleitt að að geyma í heimahúsum. Í bönkum er hægt að leigja bankahólf sem eru hentug til að geyma verðmæta pappíra og önnur verðmæti sem lítið fer fyrir," segir lögreglan á Selfossi í dagbók sinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×