Innlent

Líklegast þörf á fleiri aðgerðum til verndar heimilunum

Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Aðgerðarpakkinn til varnar heimilunum, sem oddvitar ríkisstjórnarinnar kynntu í dag er sennilegast fyrsta skref af mörgum. Þetta segir Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður framsóknarmanna. „Við erum búin að bíða í nokkurn tíma eftir viðbrögðum frá ríkisstjórninni gagnvart stöðu almennings og nú eru viðbrögðin komin. Það er í rétta átt og tímabært að koma til móts við almenning og þær byrgðar sem hann mun þurfa að bera og það er að mínu mati vel hugsanlegt að það þurfi að grípa til fleiri aðgerða þegar við sjáum framan í þá stöðu sem við erum nú lent í," segir Siv í samtali við Vísi.

Vill að Alþingi fjalli um Icesave skuldbindingarnar

„Þetta er svo stórt mál að við þurfum að fá kynningu á því í þinginu og ræða það áður en skrifað er undir en ekki eftir á. Og það hefur oft tíðkast að skrifa undir með fyrirvara um samþykki Alþingis. Ég tel að þetta sé svo stórt mál að það eigi að bíða með undirskrift þangað til þingið hefur fengið kynningu á málinu," segir Siv. Hún bætir við að það sé hægt að kalla þingið saman mjög hratt, jafnvel á nokkrum klukkustundum. Siv segir að ekki hægt að hunsa þingið í svo stóru hagsmunamáli þjóðarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×