Innlent

Starfsmenn Samskipa læra íslensku

Hópurinn sem útskrifaðist úr íslenskunáminu.
Hópurinn sem útskrifaðist úr íslenskunáminu.

Á fjórða tug starfsmanna af erlendum uppruna hjá Samskipum luku í vikunni námskeiði í íslensku sem félagið stendur fyrir og hefur notið styrks frá menntamálaráðuneytinu. Þetta er þriðja önnin sem markvisst íslenskunám fer fram í vinnutíma fyrir alla erlenda starfsmenn Samskipa.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samskipum.

„Námskeið sem þessi eru afar mikilvæg, bæði starfsmönnum og félaginu," segir Auður Þórhallsdóttir, fræðslustjóri Samskipa, sem skipuleggur og heldur utanum framkvæmd námskeiðanna. „Við sjáum starfsfólkið blómstra og kynnumst því á alveg nýjan hátt. Svo vitum við að bætt íslenskukunnátta styrkir það einnig á öðrum vettvangi og hjálpar því almennt að fóta sig hér á landi."

Alls luku 36 starfsmenn 30 tíma námskeiði í íslensku fyrir starfsfólk af erlendum uppruna hjá Samskipum að þessu sinni. Ástundun var afar góð og nefna má sem dæmi að 13 starfsmenn voru með 100% mætingu en aðeins þeir sem ná 75% mætingu fá að útskrifast. Veitt var sérstök viðurkenning fyrir góða ástundun og allir nemendum fengu viðurkenningarskjal fyrir þátttöku.

Samskip hlutu á dögunum Starfsmenntaverðlaunin 2008 í flokki fyrirtækja fyrir framúrskarandi árangur í menntunarmálum starfsfólks.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×