Innlent

Vinstri beygja frá Bústaðavegi lögð niður

Borgarráð samþykkti í dag að loka til reynslu í sex mánuði vinstri beygju af Bústaðavegi inn á Reykjanesbraut í Elliðaárdal. Breytingunni er ætlað að draga úr álagi við gatnamótin og verður á reynslutímanum kannað hvort biðraðir á annatímum styttist.

Fram kemur í tilkynningu að gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar hafa verið til skoðunar um nokkurn tíma þar sem til umræðu hefur verið að gera tilraun með lokun á vinstri beygjunni inn á Reykjanesbraut. Umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkur samþykkti einróma tillögu þessa efnis á fundi sínum í vikunni.

,,Áður en tilraunin kemur til framkvæmda verður málið kynnt vel fyrir íbúum hverfisins og öryggi skólabarna í hverfinu tryggt með viðeigandi aðgerðum á Réttarholtsvegi," segir í tilkynningu.

Sigrún Elsa Smáradóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar sat hjá við afgreiðsluna í borgarráði. Hún sagði í bókun að Hverfisráð Háaleitis hafi fjallað um málið og sett sig upp á móti lokuninni. ,,Hverfisráðið telur lokunina fela í sér verulega aukna umferð um íbúðarhverfið einkum Réttarholtsveg, en við þá götu stendur Réttarholtsskóli."

Þá rifjaði Sigrún Elsa upp að fyrr á kjörtímabilinu hafi þáverandi borgarstjóri Ólafur F. Magnússon lofað að ekkert yrði af lokuninni. Yfirlýsingunni hafi verið fagnað og telur Sigrún Elsa að Sjálfstæðisflokkurinn hljóti að bera ábyrgð á þeim loforðum sem íbúum hafa verið gefin í þeirra umboði á kjörtímabilinu.

Umferðarteppa á álagstímum er lítið vandamál miðað við þau óþægindi og skert umferðaröryggi sem íbúar Fossvogs og Bústaðahverfis munu búa við aðra tíma sólarhringsins vegna lokunarinnar, að mati Ólafs F. Magnússonar og borgarfulltrúi F-listans.

,,Ákvörðunin er tekin af stjórnmálamönnum sem þykjast vita betur en fólkið í Fossvogs og Bústaðahverfi sem vill beina umferð út úr hverfinu en ekki inn í það, eins og meirihlutinn í Borgarstjórn Reykjavíkur vill," sagði Ólafur í bókun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×