Innlent

Endurspeglar breytt landslag

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson.

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir nýjan þjóðarpúls Gallups endurspegla breytt landslag í íslenskum stjórnmálum.

Í könnunni mælist stuðningur við Vinstri græna meiri en Sjálfstæðisflokkinn sem er orðin þriðji stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Samfylkingin nýtur mest stuðnings og segjast 31% myndu kjósa flokkinn. 27% segjast myndu kjósa Vinstri græna en 26% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Stuðningur við Framsóknarflokkinn mælist 10% og þá nýtur Frjálslyndi flokkurinn 3% stuðnings.

Ögmundur segir að niðurstaða þjóðarpúlsins sé ánægjuleg en bætir við að hafa verði í huga að skoðanakannnir séu breytilegar og ekki alltaf traustur vegvísir. ,,Enda mótum við okkar stefnu ekki á grundvelli þeirra heldur hvað okkur finnst. En það er greinilegt að okkar stefna er í takt við það sem stórum hluta þjóðarinnar þykir rétt og það er ánægjulegt."

,,Bæði varnaðarorðin og þeir vegvísar inn í framtíðina sem við höfum haldið á lofti hafa reynst réttari og á traustari grunni en andstæðingar okkar vildu trúa," segir Ögmundur.

Ögmundur segir að landslagið í íslenskri pólitík sé að breytast að því leyti að fólk í öllum flokkum endurmeti nú sín grunnviðhorf. Hann telur líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin muni endurmeta stefnu sína.

,,Allir þessar flokkar eiga það sameiginlegt að hafa dregið frjálshyggjufánann að húni á undanförnum árum. Við erum í rauninni eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur haft samfélagsgildi í öndvegi og varað við peningafrjálshyggjunni."






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×