Innlent

Bilið milli ríkra og fátækra eykst innan OECD

Bilið milli ríkra og fátækra innan OECD-ríkjanna hefur aukist á síðustu tveimur áratugum og þá hefur þeim sem lifa undir fátækramörkum einnig fjölgað. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu OECD sem kynnt var í gær.

Þar kemur einnig fram að aukin misskipting nái til þriggja af hverjum fjórum ríkjum OECD. Þannig jókst tekjumunurinn umtalsvert í Kanda, Þýskalandi, Noregi og Bandaríkjunum í upphafi aldarinnar en bilið milli ríkra og fátækra minnkaði hins vegar í Grikklandi, Mexíkó og Bretlandi. Þá sýna rannsóknir OECD að aukin misskipting birtist fyrst og fremst í því að bilið milli hinna ríku annars vegar og bæði lág- og millitekjufólks hins vegar er að aukast.

 

 

Tekjur þeirra tíu prósenta sem ríkust eru, eru að meðaltali níu sinnum hærri en þeirra tíu prósenta sem fátækust eru samkvæmt tölum OECD. Munurinn er þó nokkur milli landa. Þannig eru tekjur hinna ríkustu í Mexíkó 25 sinnum hærri en þeirra fátækustu og í Tyrklandi eru hinir ríku með 17 sinnum hærri tekjur en hinir fátæku. Í Danmörku eru tekjur þeirra tíu prósenta sem ríkust eru um fimm sinnum hærri en þeirra sem fátækust eru og á Íslandi eru þær sjö sinnum hærri.

Ein af hverjum tíu manneskjum innan OECD-ríkjanna var enn fremur með tekjur sem eru innan við helmingur af landsmeðaltali árið 2005 og töldust því fátækar. Munurinn var þó mikill á milli landa. Í Danmörku var hlutfallið fimm prósent og á Íslandi um sjö prósent en í Bandaríkjunum og Tyrklandi teljast 17 prósent til fátækra.

 

 

Þá sýna tölur OECD að sú breyting hefur orðið á síðustu tveimur áratugum að fátækum meðal eldra fólks hafi fækkað en ungt fólk og ungar fjölskyldur eru í meiri hættu en áður á að glíma við fátækt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×