Innlent

Vilja öll gögn um Icesave áður en afstaða er tekin til láns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Ríkisstjórnin verður að leggja fram öll gögn og upplýsingar varðandi Icesave deiluna áður en Alþingi tekur afstöðu til fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta kemur fram í bréfi þriggja þingmanna Vinstri grænna til forsætisráðherra.

Í bréfinu, sem sent var forsætisráðherra í gær, leggja þingmennirnir fram ellefu spurningar í þremur liðum.

Vísað er meðal annars til fundar sem Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, átti með öðrum evrópskum fjármálaráðherrum í byrjun þessa mánaðar. Fundurinn þótti marka tímamót í Icesave deilunni en þá varð íslenskum stjórnvöldum tjáð að lokað yrði á allar lánalínur nema lausn fengist í deilunni.

Óska þingmennirnir eftir því að fundagerð þessa fundar verði lögð fram sem og að upplýst verði hvaða aðgerðum Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópuríki hafi hótað að beita yrði ekki fundinn lausn á Icesave deilunni.

Þá er óskað eftir upplýsingum hvort til standi að greiða allar innistæður í þýska dótturfélagi KB-banka eða einungis upp að 21 þúsund evru markinu. Vilja þingmennirnir vita á hvaða forsendum það verði gert, hvaða fordæmi það kann að skapa gagnvart öðrum ríkjum og hvort Þjóðverja muni lána Íslendingum fyrir greiðslunni.

Er þess ennfremur krafist að að fjármálaráðherra gefi skýrslu fyrir utanríkimálanefnd um samskipti og samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og við Evrópusambandið og þau lönd sem tengjast Icesave deilunni.

Þingmennirnir vilja einnig að Alþingi fái fullnægjandi svör við lögfræðilegri gagnrýni vegna Icesave deilunnar og ennfremur hvort verðmat hafi farið fram á eignum Landsbankans í Bretlandi.

Er þess krafist að upplýsingar og gögn um þessi mál liggi fyrir áður en Alþingi tekur afstöðu til fyrirgreðuslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ábyrgðar á Icesave reikningunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×