Erlent

Karadzic hlýddi á breytta ákæru gegn sér í Haag

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Radovan Karadzic.
Radovan Karadzic. MYND/AP

„Slátrarinn frá Bosníu", Radovan Karadzic, kom fyrir stríðsglæpadómstólinn í Haag í morgun til að hlýða á breytingu sem gerð hefur verið á ákærunni gegn honum. Karadzic er ákærður fyrir stríðsglæpi og þjóðarmorð og er ákæran alls í 11 liðum.

Karadzic var leiðtogi Bosníu-Serba í borgarastyrjöldinni 1992 - 1995 sem fylgdi í kjölfar aðskilnaðar Bosníu-Herzegóvínu frá þáverandi Júgóslavíu. Talið er að hermenn Karadzic hafi slátrað hundruðum þúsunda múslima og Króata þegar þjóðernishreinsanirnar svokölluðu stóðu yfir en Karadzic var þá forseti Serbneska lýðveldisins í Bosníu-Herzegóvínu. Um tíma var talið að 300.000 múslimar hefðu týnt lífi í stríðinu en nýlegar athuganir gefa til kynna að þeir hafi verið nær 100.000.

Karadzic sást síðast opinberlega árið 1996. Hann er geðlæknir að mennt og fór, að sögn serbneskra yfirvalda, huldu höfði árum saman og stundaði lækningar undir fölsku nafni. Að Karadzic frátöldum er hershöfðinginn fyrrverandi, Ratko Mladic, náinn samverkamaður hans, talinn hættulegasti stríðsglæpamaður sem enn gengur laus og eru stjórnvöld í Serbíu hvött til að hafa hendur í hári hans, meðal annars af sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×