Innlent

Skattar hækkuðu langmest á Íslandi

Íslendingar eru sú þjóð sem mátt hefur þola langmestar skattahækkanir af öllum þjóðum innan Efnahags- og framfarastofnuninnar, OECD, á síðasta áratug. Er nú svo komið að Ísland er komið á topp tíu listann yfir þau ríki sem þyngsta skattbyrði leggja á þegna sína.

Stjórnmálamenn á Alþingi eru nú farnir að tala um að skattahækkanir séu óhjákvæmilegar. Tölur sem OECD birti fyrir hálfum mánuði sýna hins vegar að landsmenn hafa allt frá árinu 1995 mátt þola verulega þyngingu skattbyrði, úr rétt liðlega þrjátíu prósentum af vergri landsframleiðslu og vel yfir fjörutíu prósent. Bráðabirgðatölur fyrir síðasta ár sýna að skatthlutfallið var þá komið í 41,4 prósent.

Efnahags- og framfarastofnunin birti einnig töflu sem sýnir hvernig skattbyrði breyttist í iðnríkjunum á einum áratug. Athygli vekur að eitt land, Ísland, sker sig algerlega úr, sem það ríki sem þyngdi skattbyrði á þegna sýna langmest af öllum iðnríkjum heims á nýjasta viðmiðunartímabili, 1995 til 2006. Ísland var eina landið með yfir tíu prósentustiga aukningu skatta. Tyrkland og Kórea komu næst með um sjö prósentastiga aukningu, en Spánn var í fjórða sæti með fjögurra prósentustiga aukningu. Meðaltal OECD var 1,2 prósentustiga aukning skatta og var skattahækkunin á Íslandi því meira en áttfalt meiri en meðaltalið.

Ísland klifraði á þessum áratug hratt upp listann yfir ríki með þyngstu skattbyrðina en þar tróna nú Danmörk og Svíþjóð á toppnum. Ísland er komið á topp tíu listann og er nú í níunda sæti yfir þau ríki sem leggja á þyngstu skattana.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×