Innlent

Dæmdur fyrir kynmök við 12 ára stúlku

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvítugan karlmann í 15 mánaða fangelsi, þar af 12 skilorðsbundna, fyrir að hafa haft kynmök við 12 ára stúlku. Það gerði hann á heimili sínu í lok júlí í fyrra.

Pilturinn játaði að hafa átt við hana samræði en sagðist hafa talið hana vera 14 ára gamla þar sem hún hefði sagt honum það í spjalli á Netinu. Stúlkan hélt því hins vegar fram að hún hefði í umrætt sinn sagt honum að hún væri 12 ára og yrði 13 ára skömmu síðar. Fékk sá framburður stuðning í framburði vitnis.

Taldi dómurinn því sannað að piltinum hefði átt að vera ljóst að stúlkan væri 12 ára. Enn fremur taldi dómurinn í ljósi ungs aldurs piltsins og þess að hann hefði ekki áður sætt refisingu að rétt væri að skilorðsbinda refsinguna að hluta. Þá var hann dæmdur til að greiða stúlkunni 400 þúsund krónur í skaðabætur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×